Gerjunarsett

Gerjunarsett fyrir öll berja-, fífla og rabbabaravín

Athuga skal að ekki má nota saft sem inniheldur rotvarnarefni.

Hráefni

Í Berjavín fara 10L af hrásafti eftir að hratið hefur verið tekið frá og 5 kg af sykri.

Í Rabbabaravín fara 15 kg af hráefninu og 5 kg sykur.

Í Fíflavín 15L og 5-6 kg sykur, 10 sítrónur, 6 appelsínur, 750 ml grapeþykkni eða 2 kg rúsinur. (Tína blómin í þurru sólarveðri þegar þau eru vel opin).

Gamalt húsráð segir að gott sé að bæta 3 mauksoðnum bönunum út í þegar sykurinn er leystur upp en skiptar skoðanir eru um ágæti þess.

Upplýsingar um íblöndunarefni

Vínger og gernærir (Poki A): Þetta er einstaklega sterkt og virkt ger sem kemur erfiðistu hráefnum af stað. Nægir í 25 lítra og notað til léttvínsgerðar. Gernæririnn örvar safa, sem lengi er að taka við sér, til að gerjast betur.

Gerstopp, brennisteinn E224 og kalíumsorbat E202 (Poki B): Notað til að stöðva vínið á því bragð- og styrkleikastigi sem óskað er. Stöðvar gerjunina og varðveitir bragð vínsins og lit. Einnig rotvörn. Í nægjanlegu magni kemur það í veg fyrir að ger geti starfað en minna magn þarf til rotvarnar. Hjálpar þannig upp á endingu vína með því að verja það gegn villigerlum, víngerlum og öðrum skemmdum.

Víntærir, felliefni (Pokar C&D): Kieselsól(Poki C) og Chitosan(Poki D). Þetta er tveggja þátta efni sem nota á ef vínið verður ekki tært af sjálfu sér. Þetta er mjög áhrifaríkt efni og árangur næst á 1 sólarhring.

Vínsýra (Poki 4): Gerir safann súran. Nauðsynlegt að nota ef um krækiberja- og rabbabaravín er að ræða.

Pectolase, tærleikahvati (Poki P): Er notað til að skerpa bragð, lit og safanýtingu úr ávöxtunum. Hvatinn flýtir einnig tærleikaferlinu.

Upplýsingar um íblöndunarefni sem nauðsynlegt er að nota í Rabbabaravín

en fylgir ekki þessu gersetti

Krít (Vínarkalk): Calsium Carbonate. Notað til að fjarlægja Oxalsýru.

Gott efni en ekki nauðsynlegt

Bentonit: Náttúrulegur leir sem notaður er til að fella út ger og ýmis prótein sem gera gerjaðan vökva skýjaðan.

Aðferð

  1. Best er að þvo hráefnið, berin, blómin, leggina í sjóðandi vatni til að drepa villigerilinn sem fylgir þeim úr náttúrunni. Berin eru svo sprengd og saft + hrat sett í gerjunarílátið
  2. Ef um rabbabara er að ræða þarf að hreinsa leggina, saxa þá vandlega niður og setja í gerjunarílátið. Hella 6-8 lítrum af heitu vatni yfir, hrista gerjunarílátið kröftuglega af og til næstu 24 tímana þar til rabbabarinn er farinn í mauk en þá er hann tilbúinn fyrir sýruskiptin, Oxalsýra er fjarlægð með 1,5 gr krít pr. kg. Sía skal saftið frá hratinu, hræra vínarkalki (Krít) saman við saftið og hræra af og til næstu 6-8 tímana. Eftir það er saftið látið standa yfir nótt og næsta dag fleytt yfir í hreint ílát þannig að kalk og sýrubotnfall verði eftir og því fleygt.
  3. Sykurinn leystur upp í sjóðandi vatni og vínsýrunni (Poki 4) einungis bætt út í ef um krækiberjavín eða rabbabaravín er að ræða.
  4. Ef um Fíflavín er að ræða þá er stilkurinn tekin frá blóminu sama dag og þau eru tínd. Ekki láta blómin liggja lengur en 3 daga í bleyti. Hella 4-6 lítrum af heitu vatni yfir, hræra reglulega i leginum næstu 2-3 daga. Kreista því næst safann úr ávöxtunum og hann geymdur. Lögunin er sett í pott ásamt berki ávaxtanna og soðið í 1 klukkustund, best að setja sykurinn út í hér. Grapeþykninu eða rúsínunum er bætt út í eftir að gerjun hefur farið af stað, ca 3 dagar.
  5. Hráefnið er svo látið liggja nokkra stund í volgu vatni og síðan hellt í gerjunarílátið. Ef um fíflavín er að ræða þarf að bæta ávaxtasafanum einnig út í.
  6. Bæta við köldu vatni þangað til 23-25L markinu er náð eða sykurflotvog sýnir 1080-1085 (80-85) en athugið að hitinn í blöndunni verður að vera á bilinu 20-27°C.
  7. Hrærið nú Pectolase (Poki P) saman við og eftir 15 mín hrærið þá gerinu og gernæringunni (Poka A) einnig saman við. Ef Bentonit er notað skal einnig hræra það saman við lögunina.
  8. Nú ætti gerjun að hefjast á 1-2 dögum (ef ekki hafið þá samband). Best er að hafa 20-25°C hita í herberginu sem gerjunarílátið er í. Hrærið daglega í löguninni (helst kvölds og morgna) og þegar kröftug gerjun hefur staðið yfir í 3-4 daga umhellið þá löguninni þannig að hratið skiljist frá. Ef hratið er látið vera of lengi í löguninni kemur beiskt bragð af kjörnunum og spillir það víninu. Látið vínið gerja alveg út (1000-995 (0--5)).
  9. Þegar þessu marki er náð fleytum við yfir í annan kút og setjum gerstopp (Poki B) saman við og hrærum vel. Eftir sólahring er best að athuga hvort það sé kolsýra í víninu og er það gert þannig að fingur er settur fyrir gatið þar sem vatnslásinn er og kúturinn hristur rækilega og ef það heyrist hviss eins og þegar gosflaska er opnuð þá þarf að hrista kútinn þangað til þetta er hætt að heyrast (ca 2-5 dagar).
  10. Þegar þessu er lokið er felliefnunum ((Kiselsol+Chitosan)(Pokar C+D)) bætt út í og gerjunarílátið látið standa óhreyft í 2-3 vikur. Athugið að gerjunarílátið verður að vera lokað og með vatn í loftlásnum.
  11. Nú þegar vínið er orðið tært er það sett á flöskur. Flöskurnar eru látnar standa í 2 daga en síðan lagðar á hliðina til lengri tíma geymslu. Best er að geyma vínið á svölum og dimmum stað. Með tímanum þroskast vínið og verður sífellt betra eftir því sem fram líða stundir.

Nokkur ráð til að mæla vín

Hitamælir

Til þess að fá gott vín þarf stöðugan og góðan hita. Varist að setja kútinn beint á gólf með hita í því þá verður upphitun neðan frá í kútnum. Hitamælar sem hægt er að láta fljóta í leginum eru bestir.

Vínmælir

Til að mæla áfengisstyrk vínsins er notaður vínmælir. Þetta er mjög einfalt tæki sem lesið er beint af. Notkunarleiðbeiningar fylgja tækinu.

Sykurflotvog

Þetta er mæling sem nýtist vel og er nauðsynleg við víngerð. Við getum fullvissað okkur um rétt sætustig í byrjun gerjunar, að rétta sætustigið sé við stöðvun gerjunar, að við eftirsætum rétt og að við finnum áfengisprósentuna. Þessu er öllu lýst í notkunarleiðbeiningunum sem fylgja.

Að lokum

Þetta efni er hugsað sem nokkrar góðar ábendingar og þarf alls ekki að fylgja í blindni. Við getum gjarnan blandað saman mismunandi ávaxta¬tegundum og fengið út úr því dásamlegar veigar. Notið hugmyndaflugið og prófið ykkur áfram en munið að þolinmæði er dyggð líka við víngerð. Það er endalaust hægt að rökræða um sætustig, hvort vín er gott eða vont. Hafið hugfast að þegar öllu er á botnnn hvolft er það eigin smekkur sem ræður.

Vakni einhverjar spurningar um víngerðina er alltaf hægt að hafa samband. Gangi ykkur vel með víngerðina og munið að hreinlæti og þolinmæði eru þýðingarmestu atriðin við alla víngerð.

 
Prentvæn útgáfa