Rabbabaravín

Aðferð:

1. Hreinlæti er mjög mikilvægt. Hreinsaðu gerjunarílát vandlega með þar til gerðum hreinsiefnum.

2. Hreinsaðu leggina og saxaðu smátt. Til að auðvelda þetta er gott ráð að frysta leggina og nota síðan rifjárn á matvinnsluvél til saxa rabarbarann. Við þetta kurlast leggirnir mikið sem auðveldar mjög losun á safanum. Ekki er gerlegt að nota svona rifjárn með góðum árangri á ófrosinn rabarbara. Hann rifnar illa og flækist í vélinni.

3. Settu rabarbarann í gerjunarílátið og láttu standa í nokkra klukkutíma eða þar til herbergishita er náð (ef rabarbarinn var frystur). Helltu 8 lítrum af sjóðandi vatni yfir og hrærðu vel í.

4. Hrærðu í blöndunni af og til næsta sólarhringinn. Þetta er gert til að losa safann úr rabarbaranum.

5. Síaðu hratið frá safanum. Góð aðferð til þess er að nota hreina, sterka grisju. Austu hrati í grisjuna og kreistu safann frá. Úr 15 kg. af rabarbara má gera ráð fyrir að fá uþb. 11 lítrum af safa ef vel er pressað. Fleygðu hratinu.

6. Núna er kominn tími til að fjarlægja oxalsýru. Það er gert með því að blanda 1,5 gr af krít (vínarkalk) fyrir hvert kíló af rabarbara. Fyrir 15 kg þarf því uþb. 22,5 gr. Blandaðu þessu vandlega út í.

7. Leystu upp sykurinn í sjóðandi vatni og helltu í safann. Blandað einnig vínsýrunni (poki F) út í.

8. Bættu við köldu vatni þar til 25L marki er náð eða þangað til sykurflotvog sýnir 1080-1085 (80-85) Öxel. Athugðu, hitastig blöndunarinnar þarf að vera 20°-27°C til að mæling sé rétt.

9. Hrærðu núna Pectalose (poki P) saman við og eftir ca. 15 mínútur er geri og gernæringu (poki A) blandað í. Ef Bentonit er notað skal einnig hræra það saman við lögunina.

10. Nú á gerjun að hefjast á 1-2 dögum. Hafðu samband við Ámuna ef það gerist ekki . Best er að hafa 20°-25°C hita í herberginu sem gerjunarílátið er haft í.

11. Hrærðu í löguninni af og til. Til dæmis kvölds og morgna og passaðu að sleifin sem notuð er sé ávalt hrein. Láttu gerjast út, eða þar til sykurflotvog sýnir 1000-995 (0-5).

12. Settu gerstopp (poki B) útí og hræðu vel. Eftir sólarhring gott að hræra kröftuglega í víninu til að losna við alla kolsýru.

13. Þegar kolsýran hefur verið hrærð úr víninu er felliefnunum (Kieselsol & Chitosan, pokar C & D) bætt út í og hrært vel. Láttu gerjunarílátið standa óhreyft í fáeina daga. Ráðlegt er að láta gerjunarílátið standa hátt til að auðvelda fleytingu ofan af botnfalli yfir í annað ílát eftir að fellingu lýkur. Eftir um það bil 1 viku á vínið að vera orðið tært. Ílátið skal vera lokað með vatn í vatnslási á meðan felling á sér stað.

14. Nú þegar vínið er orðið tært er það sett á hreinsaðar flöskur og þeim lokað. Flöskurnar eru látnar standa í 2 daga en síðan eru þær lagðar á hliðina til lengri tíma geymslu. Best er að geyma vínið á svölum, dimmum stað. Með tímanum þroskast vínið og verður sífellt betra eftir því sem fram líða stundir.

 
Prentvæn útgáfa