Heilræði

Hér er reynt að svara algengum spurningum er varða vandamál og önnur þau atriði er upp koma við og varða heimavíngerð.

Það koma ekki loftbólur í vatnslásinn

Þetta stafar í flestum tilfellum af leka lofts framhjá vatnslás. Ef froða myndast ofan á víninu gerjar það, þó að ekki komi loftbólur í lásinn. Athugið vel frágang á loki og vatnslás. Það er líka möguleiki að gerjunin hafi ekki farið af stað t.d. gerið drepist vegna of mikils hita. Ef það er ekkert líf í löguninni eftir 2 daga getur þú haft samband við Ámuna og fengið nýtt ger. Til að vera alveg viss að gerjun hafi ekki farið af stað er best að nota sykurvog. Sjá umfjöllun um sykurflotvog hér á eftir.

Gerjunin

Gerjunin gengur best við stöðugt hitastig 22-25 °C á dimmum stað sem er laus við trekk. Gerjun léttvíns tekur u.þ.b. 7-10 daga. Ef hitinn er minni getur þú reiknað með lengri gerjunartíma en líka betri gerjun. Gætið þess þó að hitinn fari ekki undir 17-18°C.

Gerjun stöðvast

Ef gerjun stöðvast, sem oft gerist t.d. þegar búa á til krækiberjavín, þá er best að hrista kútinn vel til að losa um kolsýru, taka einn bolla úr löguninni í gerjunarílátinu, blanda til helminga við vatn og leysa upp Restart gerið í honum. Gæta þarf þess að lögunin í bollanum sé 20-27°C heit þegar gerið er sett út í. Lögunin er því næst látin standa í bollanum í 15-30 mínútur en að því loknu er hún hrærð saman við lögunina í gerjunarílátinu.

Notið sykurflotvog

Besta leiðin til að fylgjast með gerjuninni er að nota sykurflotvog. Sykur breytist í vínanda og kolsýru við gerjun. Þar af leiðir að því minni sykur sem er eftir í löguninni því lengra er gerjunin kominn. Ef sykurmagnið er mælt með flotvoginni með tveggja daga millíbili og staða vogarinnar óbreytt, er engin gerjun í gangi. Sökkvi vogin hinsvegar á þessum tíma vitum við að gerjun á sér stað.

Gerjunarlok

Gerjun er lokið þegar "blúbbið" í lásnum er hætt og froðan horfin en í staðinn er komin brún rönd innan á kútnum við yfirborð vínsins. Vínið er ekki lengur sætt. ATH. Sé gerstopp sett í of fljótt verður vínið of sætt . Notið því alltaf sykurvog. Vínið verður alltaf að fá að gerja út, viljirðu síðan hafa vínið sætara má alltaf sæta það eftir á.

Vínið fellur ekki

Of hár hiti í herberginu getur haft þessi áhrif. Athugið að ef kolsýra er í víninu getur hún hindrað fellingu. Hristið þá eða umfleytið víninu nokkrum sinnum til að losna við hana. Setjið vínið síðan á svalan stað 15-18 °C. Oftast duga þessar aðferðir og aðeins lengri tími til að fá vínið tært. Ef þetta dugir ekki til þá er hægt að nota felliefni t.d. Bentonit vínfelli eða Pectolasa. Lokaúrræði er að sía vínið með sérstakri vínsíu. Það er mjög mikilvæg að vínið sé alveg tært þegar það er sett á flöskur. Hvítvin falla oft verr en rauðvín þess vegna er gjarnan notað felliefni í þau. Stundum er líka pektíninnihald óvenju mikið og verður vínið þá skýjað. Þess vegna getur þurft að setja pektínensím útí. Best er að vínin fái að falla sjálf en ef mikið liggur á má nota felliefni. Rauðvín eru kraftmikil og geta þess vegna verið gruggug á að líta séu þau í stórum ílátum, setjið þess vegna sýni í glas og berið upp að ljósi til að sjá hvort vínið er tært.

Gerbragð er af víninu

Stafar oftast af kolsýru sjá lið 5.

Vínið er of sætt

Þetta stafar af því að gerjunin hefur hætt of snemma. Einn möguleiki er að blanda vínið með mjög þurru víni eða sítrónusýru, þó aldrei meira en 50 g. per 25 lítra.

Vínið er of þurrt

Þetta er yfirleitt ekki vandamál en getur stafað af kolsýru sem á að hrista úr víninu, sjá lið 5. Þegar vínið er alveg fullgerjað á það að vera þurrt og getur þess vegna virst nokkuð súrt. Eftirsætið þá vínið eftir eigin smekk og notið sykurflotvog til að mæla sætleikann. 100 g af sykri sæta 20 lítra af víni um 2 gráður. Það er alltaf betra að brugga þurrt vín sem síðan er eftirsætt heldur en að reyna að stoppa gerjunina þegar vínið er enn sætt. (sjá lið 7).

Aukabragð af víninu

Þetta getur stafað af því að vínið hafi "oxerast" það er, að of mikið súrefni hafi komist að því. Prófið vínbætiefni sem fást í Ámunni.

Til umhugsunar

Gerið það að reglu að sótthreinsa öll ílát og annan þann búnað sem kemst í snertingu við vínið. Notið til þess sérstök sótthreinsiefni. Hellið ekki ísköldu vatni í heita glerkúta þar sem þeir geta auðveldlega sprungið við miklar hitasveiflur. Athugið að sumir kútar þola ekki mjög heitt vatn til hreinsunar.

Ef gerjunarílátið er við það að vera of lítið, fyllið það þá ekki alveg svo að pláss sé fyrir froðuna. Þegar mesti krafturinn er síðan farinn úr gerjuninni eftir u.þ.b.. 3-4 daga, setjið þá afganginn af vatninu.

Það eru mörg atriði sem hafa áhrif á bragð víns við smökkun, til dæmis hvað maður hefur borðað og drukkið rétt áður. Eins og áður segir getur kolsýra haft þau áhrif að manni finnist vínið vera súrt og gæti því leitt til þess að maður stoppar gerjunina of snemma. Notið þess vegna alltaf sykurflotvog til að vera viss um sykurmagn í víninu. Þegar gerjun er lokið, umhellið víninu sem fyrst til að ekki komi gerbragð af víninu.

Ef vínið verður ekki tært er hægt að sía það í gegnum vínsíu, þetta er aðferð sem að oft er notuð af "alvöru" framleiðendum vína. Notið vínsíu ef að þið viljið vera viss um að fá tært vín sem ekki fellur í flöskunum.

Notið alltaf uppleystan sykur þegar þið eftirsætið vínið, þið getið t.d. leyst sykurinn upp í hluta vínsins. Notið sykurflotvog og skráið hjá ykkur sykurmagnið, til viðmiðunar næst þegar bruggað er.

Lagering á eikartunnum gefur mjög góða raun. Þetta á sérstaklega við um rauðvín og sum sterk vín, t.d. sherry, madeira, whiskey, cocnac og púrtvín. Tunnan verður að vera alveg full. Og þar sem að vínið gufar úr tunnunni (þetta kall englendingar skerf engilsins) þarf að eiga aukavín til að bæta reglulega í tunnuna. Notið 20 lítra tunnu eða stærri. Vín sem lagerast á eikartunnum skulu, þegar þau hafa fengið mjúkan og góðan keim, sett á flöskur og vera þar í nokkurn tíma. Eikarspónn er annar valkostur sem kemur að nokkru leyti í staðinn fyrir tunnurnar (við höfum hann til sölu). Vínin fá kannski ekki alveg sömu mýkt og keim en vínið nær þó nokkru af hinu eftirsóknaverða ámubragði.

Notið ávallt vel sótthreinsaðar flöskur og nýja korktappa, helst meðhöndlaða tappa sem geyma vínið betur. Slíkir tappar fást einnig í Ámunni. Meðhöndlaðir tappar brotna síður við opnun. Flöskurnar á að fylla þannig að um 2 cm. bíl sé undir tappanum. Vínið á að lagerast á dimmum svölum stað og flöskurnar skulu liggja á hliðinni til að halda tappanum þöndum.

 
Prentvæn útgáfa