Víngerðarlist
Af hverju ættir þú ekki að gerast þinn eiginn vínbóndi og gera sjálfur þitt eigið gæða vín?
Víngerð hefur fylgt manninum frá upphafi menningar. Fyrstu rituðu heimildir um víngerð eru komnar frá Grikkjum og eru meira en 3500 ára gamlar. Heimildir fyrir framleiðslu á áfengum drykkjum, svo sem mjöð, öli og sýrudrykkja, eru þó mun eldri. Nútíma víngerð rekur hins vegar ættir til Grikkja sem kenndu Rómverjum er fluttu þekkinguna til nýlendna þeirra svo sem Frakklands og Spánar. Það voru Rómverjar öðrum fremur sem þróuðu aðferðir við framleiðslu á víni og byrjuðu skipulega ræktun á vínþrúgum til víngerðar.
Vín er eingöngu búið til úr þrúgum. Allt annað heitir áfengur drykkur. Ástæðan er fyrst og fremst að gerjun er sjálfsprottin með þrúgum enda vex gerið við rætur stilks þrúgunnar en gerjun hjá öðrum ávöxtum, eða annars konar sykri, er komið af stað með villigerlum eða einhverjum húsráðum fyrri tíma. Ekki er mikið vitað um víngerð fyrri tíma á Íslandi. Þó er vitað að mikið var bruggað en ekki jafn ljóst hvað var bruggað. Til er rituð heimild um það hvernig gerjun var komið af stað á þeim tíma. Aðferðin fólst í því að gestum og gangandi var boðið að spýta í öltunnu eða henda einhverju í hana, svo sem beinum eða matarafgöngum. Þannig hófst einhver gerjun í tunnunni en líklegast er þó að um villigerjun hafi verið að ræða. Slík gerjun getur framkallað áfengi og orðið u.þ.b. 5%. Það er ekki að undra að þeir sem gátu komið gerjun af stað væru álitnir galdramenn enda þekking á geri og virkni þess engin á þessum tíma.
Með sanni má segja að heimavíngerð sé vagga víngerðar. Þar hófst hún og er enn í dag stunduð um allan heim. Í vínræktarlöndunum er hún stunduð á svipaðan hátt eins og Íslendingar stunda sultugerð, en í löndum þar sem há skattlagning er á vínum er hún mjög útbreidd.
Ástæður fyrir vexti heimavíngerðar eru ekki bara skattlegs eðlis. Heimavín eru holl, bragðgóð og oft mildari og ferskari en verksmiðjuframleidd vín. Þá er víngerð heillandi og skemmtilegt tómstundagaman. Framboð af nýjum tegundum og betri efnum eykst stöðugt og með betri hjálparefnum og tækjum er heimavín fyllilega sambærilegt borðvínum frá hinum frægu vínræktarlöndum. Segja má að óðum minnki bilið á milli besta heimavínsins og hinna svokölluðu eðaltegunda.
Víngerðarefni
Almennt má skipta víngerðarefnum í þrjá flokka. Hraðvirk víngerðarefni sem bæði eru safi og þurrefni, “önnur víngerðarefni” svo sem berjavín, fíflavín og rabbabaravín, og þrúguvín sem er þykkni búið til úr vínberjum.
Hraðvirk víngerðarefni (Safi/þurrefni)
Þessi vín eru nokkuð algeng og í raun brautryðjendur í nútíma heimavíngerð. Nokkur handavinna fylgir þessari víngerð og sykurbæta þarf sumar lagnir. Athugið að þegar talað er um sykurbætt víngerðarefni er átt við efni sem búið er að setja sykur út í. Hér er ýmist um þurrefni eða safa að ræða og stundum þarf ýmis aukaefni fyrir gerið til að fá það í gang og í sumum tilfellum þarf að sjóða upp saftina. Þessi vín geta verið bragðgóð og oft mjög áfeng. Þau eru ódýr og fljótt tilbúinn til drykkjar, skemmst 7-14 daga að verða tilbúin. Ókostirnir eru að strangt til tekið eru þetta ekki vín heldur víngerðarlíki og hollustuþáttur víndrykkju því minni en í þrúguvínunum. Þau eru með litla fyllingu og henta því ekki vel með mat en eru eftir sem áður vel brúkleg í bollur og til drykkjar ein og sér.
Önnur víngerðarefni (Berjavín/rabbabari/fíflavín)
Meðhöndlun þessara vína er mjög vandmeðfarin ef vel á til að takast. Síðari ár hefur það færst í vöxt að fólk taki sig til á sumrin og nýti hverskonar ber eða rabbabarann úr garðinum og búi til vín. Helstu berin sem notuð eru rifs-, kræki- og sólber. Aðferðin við gerjun er lík fyrir þau öll en rabbabarinn er þó sérstakur hvað það varðar að meðhöndla þarf hann töluvert áður en hann er tilbúinn til gerjunar. Um gæði þessarar framleiðslu fer mjög mörgum misjöfnum sögum en þó eru til dæmi um afbragðs drykki. Að öðru leiti en því sem hér er nefnt er líkt með þessum vínum og hraðvirku víngerðarefnunum.
Þrúguvín (Þykkni)
Einu raunverulegu vínin eru gerð úr þrúgum. Oftast er um þrúguþykkni að ræða sem er þykkni búið til úr vínberjum. Þykkni sem búið er til úr öllum bestu og frægustu vínberjum og hægt að gera hvert heldur sem er hvítvín, rauðvín eða rósavín. Aðferðin við þessa tegund víngerðar er árangursríkari og einfaldari en með ofangreind víngerðarefni. Eðlismunurinn á þessari tegund vína er að þrúguvínin halda áfram að breytast og þroskast á flöskunni til hins betra. Um hvítvín og rósavín gildir almennt að þau ná góðum þroska á 2 til 4 mánuðum en rauðvín eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Þannig geta sum rauðvín náð góðum þroska á 2 mánuðum á meðan önnur þurfa 6 mánuði. Helsta vandamálið við þessa tegund víngerðar er óþolinmæði víngerðarmannsins sem gæta þarf þess að vera ekki búinn að drekka bróðurpartinn af víninu þegar það er að byrja að verða virkilega gott.